Kalkmálning – Allt sem þú þarft að vita

Kalkmálning hefur kannski ekki verið mikið notuð hér á íslandi í gegn um tíðina en hún hefur aðeins verið að ryðja sér til rúms undanfarin misseri og er bara að verða vinsælli og vinsælli. Kalkmálning er mun meira lifandi í útliti en hefðbundin veggjamálning, hún er hlýleg og falleg og gefur bæði karakter og notalega stemmningu sem minnir á gamla tíma. Náttúruleg mött áferðin og flekkóttir litirnir lífga upp á umhverfið og umvefja með hlýju.

Hvað er kalkmálning?

Kalkmálning hefur verið notuð öldum saman og nær notkun hennar allt aftur til tíma rómverja. Kalkmálning er er búin til þannig að kalksteinn (CaCO3) er brenndur í þar til gerðum kalkofni og við það verður til kalkoxíð (CaO). Kalkoxíðinu er svo blandað við vatn og búinn til þéttur leir sem er svo geymdur um tíma á meðan kalkoxíðið og vatnið hvarfast saman en þá verður til kalkdíhýdroxíð (Ca(OH)2) sem við í daglegu tali köllum kalk. Þegar þetta efnahvarf hefur klárast er svo að lokum vatni aftur blandað saman við, deigið leyst upp og hin eiginlega kalkmálning verður til. Síðasa skrefið er svo þegar við blöndum litarefnum saman við kalkmálninguna þegar viðskiptavinurinn hefur valið lit.

Hverjir eru kostir kalkmálningar?

Kalkmálning hefur marga kosti og margir þeirra eru lítt þekktir. Eins og fram kom hér að framan, þá inniheldur málningin eingöngu kalk og vatn og er því mjög umhverfisvæn og án lífrænna leysiefna og annarra eiturefna. Málningin hefur líka mjög hátt pH gildi sem gerir það að verkum að hvorki bakteríur né mygla þrífst í málningunni. Málningin andar sérstaklega vel og það minnkar líka líkur á myglu og öðrum rakatengdum vandamálum í veggjum. Kalkmálning er líka gríðarlega endingargóð og henni er auðvelt að halda við auk þess sem hún er eldtefjandi og hún hentar bæði á slétta og hrjúfa fleti.

Hvernig á að mála með kalkmálningu?

Eins og alltaf þegar á að mála, skal byrja á að þrífa flötinn með 110 Grundrengøring málarasápu. Fita og óhreinindi leynast víða og það getur haft slæm áhrif á viðloðun. Næst er er farið í viðgerðir ef þörf er á slíku, spartlað þar sem þarf, slípa yfir viðgerðirnar og loks bletta yfir þær með grunnmálningu. Þá er komið að skemmtilegasta hlutanum í þessu öllu – mála!.

Kalkmálningu er best að bera á með stórum og þykkum pensli. Pensillinn sjálfur hefur mikil áhrif á lokaútlitið sem og hvernig málningin er borin á vegginn. Tvær leiðir eru algegastar þegar kemur að því að bera kalkmálningu á veggi. Með fylgja myndbönd frá ástralska fyrirtækinu Bauwerk Colour sem sýna vel bæði aðferðir, vinnslu og útlit þessara tveggja leiða.

Þvers og kruss aðferðin – Eins og nafnið gefur til kynna þá er þetta aðferðin sem gefur hið klassíska óreglulega mynstur sem er þekktasta útlitið á kalkmálningu. Hér gildir að reyna að brjóta upp öll mynstur og reyna að skapa náttúrulegt flæði á fletinum.

Einstefnu aðferðin – Í þessari aðferð er eingöngu málað annað hvort lóðrétt eða lárétt. Þetta gefur talsvert frábrugðið útlit en er ekki síður fallegt. Hér þarf helst að gæta þess að byrja/enda pensilstrokur á mismunandi stöðum svo það sjáist ekki bein skil þar sem skeytt er saman. Að öðru leyti er ferlið það sama.

Hvar er hægt að nota kalkmálningu?

Kalkmálningin okkar er ætluð til notkunar innandyra. Hún hentar á flesta veggi og loft nema í votrými og þar sem hætta er á vatnsslettum eða slettum frá eldamennsku. Fólk hefur jafnvel málað ýmis húsgögn svo sem skenki, kommóður, hillur og fleira en þar veltur ending svolítið á notkun og umgengni. Kalkmálningin getur gefið slíkum hlutum mjög skemmtilegt útlit.

Hér fyrir neðan er hægt að skoða kalkmálninguna okkar í vefversluninni en svo er alltaf best að koma í heimsókn til okkar til að sjá litaúrvalið almennilega.

Farver málningarvezlun á samfélagsmiðlum

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *